Heilsárs sumarhúsið á Seyðisfirði var fyrsta verkefnið sem kom á borðið til mín eftir að ég stofnaði ERR Design, þar af leiðandi þykir mér einstaklega vænt um það verkefni. Eigandinn er mikill áhugamaður um hönnun og vildi vanda vel til verka og það má því með sanni segja að þetta var draumaverkefni. Þegar eigandinn hafði samband við mig var húsið fokhelt gamalt skólahús sem hann hafði áhuga á að breyta í heilsárs sumarhús. Húsið er innan við fjörutíu fermetrar að stærð og því talsverð áskorun að nýta plássið sem best. Húsið stendur niðri við fjöru og aðeins eitt annað hús er í grenndinni sem er einnig sumarhús í dag.

Engir gluggar voru á húsinu sjávarmegin, eingöngu á hliðinni sem snýr að fjallshlíðinni, því umferð um bryggjuna sem þar stóð mátti ekki trufla börnin í skólanum. Ég teiknaði og lét saga stóran glugga á útsýnishliðina inni í stofunni og bætti við litlum glugga á baðherbergið. Einnig lét ég gera glugga á gaflinn upp undir þakinu þar sem svefnaðstaðan er. En til að nýta rýmið sem best lét ég gera svefnloft yfir helming af rýminu og léttan hringstiga þangað upp. Undir svefnloftinu er svo inngangur inn í húsið, eldhúsið og baðið en stofan fær að njóta sín með fullri lofthæð sem er mjög mikil í húsinu. Kamína var sett í stofuna og eldhúsið er sérsmíði frá Axis eftir teikningum frá ERR Design. Til þess að láta rýmið virka lengra og stærra lögðum við mikla vinnu í gólfflötinn. Ég valdi mjóar og langar fjalir á gólfið sem Högni í Artic Plank raðaði saman og blandaði ólíkum gerðum saman. Til að fá réttan litatón, hlýjan og dökkan, notuðum við kaffi sem gólfið var málað með og svo lakkað yfir á eftir. Hver fjöl tók mismikið til sín af kaffinu og þannig skapaðist mikil hreyfing í gólfið.

Previous
Previous

H&M Glerártorg

Next
Next

R1 sófinn