ERR.jpg
 

Hæ, ég heiti Edda Rún, frá því ég man eftir mér hef ég verið að færa til hluti og breyta. Ég hef unun af því að gera umhverfið í kringum mig notalegt og notendavænt. Það var því kannski ekki skrítið að ég fór að læra innanhússarkitektúr og það í uppáhalds borgunum mínum Barcelona og London. Ég er fagurkeri fram í fingurgóma og styrkleiki minn felst í því að ég á auðvelt með að sjá heildarmyndina og get miðlað henni á aðgengilegan hátt til annarra.  

Um Eddu Rún

 

Ég er með BA gráðu í innanhússarkitektúr og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Ég stundaði nám í tvö ár í Eina, í Barcelona og tvö ár í Guildhall University, í London og útskrifaðist þaðan með BA gráðu í maí 2003.

Eftir útskrift var ég valin fyrir hönd skólans ásamt þremur öðrum nemendum til að sýna útskriftarverkefnið mitt á stórri hönnunarsýningu í London sem heitir “The New Designers” Það var mikill heiður að sýna lokaverkefnið mitt á svona stórri og virtri sýningu, sem stóð yfir í tvær vikur. Þangað kom margt fólk, bæði fagfólk og áhugafólk um hönnun. Lokaverkefnið mitt var spænskur veitingarstaður og bar sem ég sá fyrir mér á Íslandi í húsnæði Apóteksins við Pósthússtræti.

Ég starfaði sjálfstætt í eitt ár í London eftir útskrift og hannaði á þeim tíma verslun sem seldi listmuni & hönnun og var staðsett í hjarta London, Carnaby Street sem liggur á milli Oxford Street og Regent Street. Ég hannaði alla umgjörðina, ímynd og lógó fyrir verslunina. Einnig vann ég við ýmis önnur verkefni í London.

Árið 2004 ákvað ég að breyta til og flytja heim til Íslands eftir níu ára búsetu á Ítalíu, í Portúgal, á Spáni og í Bretlandi. Ég var búin að troðfylla bakpokann minn af þekkingu um hönnun og lífsstíl sem mig langaði að deila með fleirum.

Ég hóf störf hjá THG Arkitektum, en ég var búin að vinna þar öll sumrin á námsárum mínum. Hjá THG Arkitektum vann ég við mörg og fjölbreytt verkefni, t.d. íbúðir fyrir aldraða, litlar verslanir, endurbætur á kaffihúsi og á skrifstofum. Eitt stærsta verkefnið mitt var hönnun á nýja skrifstofuhúsnæðinu fyrir Morgunblaðið í Hádegismóum og vinna í teymi í nokkur ár með Icelandair hótels varðandi nýja heildarhugmynd sem varð að hótel Marina og fleiri hótelum hjá þeim.

Árið 2010 stofnaði ég ERR Design. Á meðal verkefna sem ég hef unnið er hönnun íbúðarhúss fyrir utan Seyðisfjörð og veitt ráðgjöf til heimila og fyrirtækja við innanhússhönnun. Á Glerártorgi hannaði ég skóbúðina Stíg, endurhannaði Make up Gallery, hannaði sófann R1, borð og hillur fyrir setustofur, teiknaði fyrstu drög að nýjum veitingarstað og hannaði nýjan front fyrir H.Ó. úrsmið.  Verkefnastýrði uppsetningu auglýsinga sjónvarpskjáa inni og úti á Glerártogi.  Hannaði og verkefnastýrði barnaleiksvæðum, sá um verkefnastjórnun & samskipti milli H&M og Eikar á uppsetningu verslunar H&M.   Hannað skrifstofur Fasteignar í Pósthússtræti, skrifstofu ÞOR við Suðurlandsbraut og síðar við Laugaveg / Bolholt, skrifstofu Festi lífeyrissjóðs í Reykjanesbæ og fleira. 

Edda (hjá) ERR.is